Færsluflokkur: Kilimanjaro
11.2.2008 | 15:24
Gagnlegar vefsíður um Kilimanjaro
http://www.climbmountkilimanjaro.com/
Besta síðan um Kilimanjaro sem ég fann á netinu. Haldið úti af Henry Stedman sem hefur gengið allar leiðirnar á fjallið.
Ég fór með African Walking Company á Kilimanjaro, þeir eru ekki með vefsíðu en netfangið hjá þeim er; african_walking@hotmail.com Ég mæli hiklaust með þeim og Henry Stedman segir þá vera í hópi þeirra bestu sem bjóða uppá ferðir á Kilimanjaro. Einnig mæli ég með Obote, Wilfred og Hans sem leiðsögumönnum.
http://www.kilimanjaromtresort.com/
Hótelið í Marangu sem ég gisti á fyrir og eftir gönguna.
Ég sendi vegabréfið til Svíþjóðar mánuði fyrir brottför til að fá áritun til Tansaníu. Það er reyndar líka hægt að fá áritunina á flugvellinum í Tansaníu.
http://www.snow-forecast.com/resorts/Kilimanjaro/6day/mid
Veðurspá fyrir Kilimanjaro.
http://www.masai-mara.com/mmsw.htm
Nokkur orð á swahili.
Kilimanjaro | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2008 | 15:11
Ýmis ráð frá mér og öðrum
Ø Nauðsynlegt er að klæðast hreinum og þurrum sokkum þegar farið er á toppinn. Óhreinir sokkar drekka frekar í sig svita af fótunum og svo frís allt saman.
Ø Hafa gönguskóna í handfarangri í fluginu. Það er hægt að leigja allan búnaðinn úti ef hann tapast í flugi en ég mundi ekki vilja leigja gönguskó.
Ø Öruggara er að pakka öllum farangri í plastpoka ef það skyldi rigna.
Ø Nauðsynlegt er að hafa einangrun utan um vatnsflöskurnar þegar farið er á toppinn. Mér fannst þægilegt að vera með camelbag en sumar tegundir vilja þó leka og svo vill frjósa í slöngunni.
Ø Setja ný batterí í ennisljósið áður en haldið er á toppinn.
Ø Gsm samband er á toppnum. Pakka símanum í plastpoka og hafa hann inná sér svo batteríið endist og ekki komist raki í símann og hann frjósi þegar komið er á toppinn.
Ø Sama gildir um myndavélina, vera með auka batterí í hana. Geyma hana þannig að auðvelt sé að ná í hana til að taka myndir.
Ø Taskan fyrir farangurinn þarf að vera úr mjúku efni svo þægilegt sé fyrir burðarmennina að bera hana á höfðinu.
Ø Þvottaklemmur og bréfaklemmur eru þægilegar til að hengja blaut föt á tjaldið eða utan á bakpokann á daginn.
Ø Hafa 6-8 orkubari með á toppinn, hafa þá þar sem auðvelt er að ná í þá og borða og drekka vel í öllum stoppum. Mikilvægt er að borða jafnt og þétt til að viðhalda orkunni.
Ø Hafa eyrnatappa og ferðakodda í fluginu, og góða bók.
Ø Hafa lyf og sjúkratösku í handfarangri í fluginu, ekki þó skærin.
Ø Ef þú hyggur ekki á frekari göngur á há fjöll fljótlega þá er sniðugra að afhenda yfirleiðsögumanninum lyfin þín en að henda þeim þegar þú kemur heim.
Ø Leiðsögumenn og burðarmenn geta nýtt allan þann búnað sem þú vilt láta af hendi rakna. Leiðsögumennirnir í mínum hóp voru t.d. ekki í vettlingum þegar við fórum á toppinn og þeim var greinilega kalt á fótunum.
Ø Vera alltaf í þunnum vettlingum. Verndar hendurnar fyrir kulda og sólinni. Ekki gleyma vörunum, þær brenna líka.
Ø Nota mikla sólarvörn, vera með hatt og sólgleraugu.
Ø Vera með nóg af fötum óvíst hvort hægt er að þurrka blaut föt á fjallinu.
Ø Nauðsynlegt að hafa afþreyingu á kvöldin.
Ø Skiptar skoðanir eru um hvort legghlífar séu hentugar eða ekki. Mér persónulega fannst þær óþarfi.
Ø Ostur í Tansaníu er ekki gerilsneyddur, forðast hann eins og hægt er.
Ø Sterkt teip getur nýst í ýmis konar viðgerðir á fatnaði og farangri. Gott að vefja nokkra hringi utan um göngustafina svo ekki þurfi að vera með alla rúlluna.
Ø Fara hægt og varlega síðasta spölinn á toppinn. Þegar sér fyrir endann á göngunni hættir fólki til að flýta sér og gleyma varkárninni.
Ø Vera í mörgum lögum af fötum. Ef það er vindur á toppadeginum verður það kaldasti dagur sem þú hefur upplifað. Sérstaklega kalt á höndum, fótum, andliti og eyrum.
Ø Til að minnka líkur á hæðarveiki þarf að drekka minnst 3 lítra af vökva, ganga mjög hægt, passa að vera alltaf hlýtt og borða vel.
Ø Það er minna þreytandi að ganga stöðugt og á hægum hraða frekar en að ganga hratt og stoppa oftar. Taka minni skref og dragast afturúr frekar en strekkjast áfram til að halda hópinn. Það eru margir fararstjórar með hópnum og einhver þeirra fylgir þér.
Ø Ekki flýta þér á niðurleiðinni þar er ýmislegt að sjá sem þú sást ekki á leiðinni upp.
Ø Taka stutt skref á leiðinni niður það reynir minna á hnén, göngustafir létta einnig álaginu af hnjánum.
Ø Gera ráð fyrir að þú komist á toppinn og sjá þá mynd fyrir þér í huganum. Allar efasemdir draga úr möguleikanum.
Ø Skipta fjallinu niður í nokkur minni markmið og þá verður þetta verkefni ekki eins stórt og ógnvekjandi.
· 6 dagleiðir
· Fyrir og eftir hádegi
· Áfangaskipta toppadeginum. Frá Kibo Hut að Gillmans point eru 3,3 km. Hækkunin er 960 metrar. Brattinn er 1:3,3.
§ Náttstaður í Kibo Hut er í 4713 metra hæð.
§ Williams point er í 5000 metrum. Þangað er 1 klst og 45 mín ganga.
§ Hans Meyer cave er í 5151 metrum. 30 mín ganga.
§ Gillmans point er í 5681 metrum. 2 klst 30 mín ganga.
§ Stella point er í 5752 metrum. 25 mín ganga.
§ Uhuru peak 5895 metrar, 45 mín ganga.
20.12.2007 | 18:46
Farangurinn
Vindjakki
Vindbuxur
Flíspeysu þykka
Flísbuxur
Þunnar ullarpeysur 3-4 stk
Göngubuxur þunnar
Stuttermaboli 3-4
Nærföt, amk eitt sett úr ull
Silkináttföt
Göngusokka úr ull t.d. smartwool 5 pör
Göngusokka þykka til að fara í á toppinn.
Svefnpoka, hlýjan því það er við frostmark á nóttunni.
Kodda
Einangrunardýnu / þunna vindsæng
Göngustafi
Gönguskó
Auka skóreimar
Bakpoka lítinn
Sjópoka / góða tösku fyrir farangurinn
Plastpoka mis stóra
Ennisljós
Auka batterí
Vatnsflöskur fyrir 3-4 lítra og einangrun utan um þær
Sólhatt eða buff
Vettlinga þunna
Vettlinga þykka
Lambhúshetta og etv. önnur húfa
Flugnanet
Orkubari og annað orkuríkt göngunesti.
Mp3 spilari
Bók
Sólgleraugu sem ætluð eru fyrir sterka sól
Dagbók og blýantur
Bætur á vindjakka og vindbuxur
Bætur á vindsæng
Snyrtivörur
Sterka sólarvörn
Varasalva með sterkri sólarvörn
After sun
Hælsæraplástra stóra og litla
Fótakrem
Sápu
Sótthreinsiefni á hendur (ekki alltaf hægt að þvo sér)
Klósettpappír
Tannbursta og tannkrem
Naglaklippur
Þvottastykki sem þornar fljótt
SjúkrataskanSótthreinsiefni á sár
Teygjubindi
Sótthreinsitöflur fyrir vatn
Hvítlaukstöflur (sótthreinsandi fyrir meltingarveginn og líkur eru á að hvítlaukur þynni blóðið og bæti þar með hæðaraðlögunina).
Malaríulyf
Panodil
Magnyl
Íbúfen 600 mg
Síklalyf breiðverkandi
Diamox, flýtir fyrir hæðaraðlögun.
Adalat oros, dregur úr hættunni á lungnabjúg.
Immodium, við niðurgangi.
Steinefni og sölt til að setja útí drykkjarvatnið.
Deet, skordýrafæla
Skæri
Plástur
Frekari upplýsingar um lyf og bólusetningar má fá hjá www.ferdavernd.is
Kilimanjaro | Breytt 11.2.2008 kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2007 | 14:14
Dagur 9
15.9.2007 | 14:13
Dagur 8
Ótrúlegt en ég náði ekki að sofa nema í um 8 klst í nótt. Það var þó langþráður svefn. Tyrfingur er loksins búinn að endurheimta heilsuna og matarlystina. Allt rykugt í tjaldinu eftir vindinn í nótt og þykkt ryklag var yfir klósettinu. Eftir morgunmatinn afhentum við leiðsögumönnunum og kokkinum þjórféð en sem betur fer þá fengum við blað frá The African walking company með upplýsingum um fjölda starfsmanna og hversu mikið væri viðeigandi að borga hverjum og einum í þjórfé. Allt starfsfólkið safnaðist svo saman og söng Kilimanjaro sönginn fyrir okkur. Við gengum svo af stað um kl. 8. Borðuðum nestið okkar við Mandara hut um kl. 12. Vorum komin niður að Marangu hliðinu um kl. 14 og þar með var þessi fjallganga á enda. Þar þurftum við að skrá okkur hjá hliðverðinum og kíktum aðeins í minjagripabúðina. Afgreiðslan þar var þó afskaplega hæg og allt afgreitt yfir búðarborðið. Hittum svo burðarmennina, afhentum þeim þjórfé og gáfum þeim hluta af búnaðinum okkar. Aftur söng allur hópurinn fyrir okkur Kilimanjaro sönginn. Við vorum svo keyrð á sama hótelið. Þar fórum við beint í sturtu og það sem við vorum skítug eftir allt rykið. Svo var það langþráður Kilimanjaro bjór á sundlaugarbakkanum. Leiðsögumennirnir og kokkurinn komu svo og hittu okkur kl 17, afhentu okkur viðurkenningarskjölin fyrir árangurinn og við buðum þeim uppá bjór og svo í kvöldverð. Við Tyrfingur höfðum einnig keypt nokkrar litlar brennivínsflöskur í Fríhöfninni á leiðinni út og gáfum þeim öllum eina flösku sem þeir voru kátir með. Spruning hvernig þeim hefur líkað bragðið.

Kilimanjaro | Breytt s.d. kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2007 | 14:10
Dagur 7
Við gengum af stað frá Kibo hut um miðnætti. Það var fullt tungl og stjörnubjart svo fljótlega slökktum við á ennisljósunum. Við gengum í einni halarófu á eftir Obed yfirfararstjóra sem fór mjög hægt. Einn fararstjóri var í miðjum hópnum, einn á eftir og einn ýmist til hliðar eða á eftir. Og þeir sungu mest alla leiðina sem stytti okkur stundir og allt í einu var komið að fyrsta stoppi við Hans Mayer cave í um 5150 metra hæð og klukkan var að verða tvö. Enn sem komið var fannst mér þetta ekkert mál. Tyrfingi var áfram óglatt en hélt samt ótrauður áfram. Hann var þó svo þreyttur að ef hann settist niður þá sofnaði hann. Hakuna matata (ekkert mál) og alveg að verða komin voru þau orð sem við heyrðum oftast alla nóttina. Við smá tosuðumst upp og ég fann að eftir því sem ofar dró varð ég móðari og svefnleysið var einnig farið að segja til sín. Frá Jamica rocks í 5500 metra hæð upp að Gillmans point í 5685 metra hæð fannst mér erfiðasti hlutinn. En einhvern veginn tókst Wilfred leiðsögumanni að tala mig þarna upp, benti mér á ljósin hjá öðrum ferðalöngum og sagði þá vera komna upp og því stutt eftir. Þegar við vorum að verða komin upp á gígbrúnina við Gillmans point var farið að birta, sólin að koma upp og þá hlýnaði, loksins. Þegar ég var komin upp leit ég til baka á sólarupprásina (við gengum í vestur og því bakið í sólina) en ekki fannst mér hún nú merkileg m.v. það sem við eigum að venjast hér á landi. Þegar ég kom að Gillmans point, kl. 6.30, var ég komin með höfuðverk og fannst því ráðlegast að snúa við þar. Tyrfingur var einnig sendur niður vegna ógleðinnar. Við Gillmans point fengum við heitt te en sérstakur burðarmaður var með í ferðinni til að bera teð þarna upp fyrir okkur.
Hinir strákarnir héldu áfram og komust allir á toppinn. Það tók þá 3 klst fram og til baka frá Gillmans point. Við Tyrfingur fórum niður með Obed fararstjóra og vorum ekki nema 2 klst niður. Vorum alveg að stikna á leiðinni því nú var sólin farin að skína. Ég steinsofnaði þegar við komum í Kibo hut en þrátt fyrir svefnleysi, mikla göngu og þreytu þá var ég glaðvöknuð eftir þriggja tíma svefn. Var enn með hausverk þegar ég vaknaði og tók verkjalyf við honum. Tyrfingi var enn óglatt. Hádegisverður kl. 13.30. Strákunum sem fóru á toppinn leið misjafnlega, allir dauð þreyttir og flestir með einhvern hausverk. Einn hafði farið að sýna byrjunareinkenni alvarlegrar hæðarveiki og var hann því hálf dreginn niður af fararstjóranum. Um kl. 15 héldum við aftur af stað því við áttum eftir að ganga í 3 klst. niður að Horombo hut í 3700 metra hæð. Við fórum niður af fjallinu um Marangu leiðina eða Coca cola leiðina eins og hún er oftast kölluð því þetta er fjölfarnasta leiðin á fjallinu. Þarna eru breiðir og fínir göngustígar og fullt af fólki. Þessi leið hefur einnig verið notuð fyrir bíla t.d. til að koma byggingarefninu í Kibo hut á sínum tíma. Komum að Horombo hut um kl. 18. Þar er fullt af húsum og örugglega nokkur hundruð manns saman komin. Eftir kvöldmatinn skreið ég í svefnpokann og tjaldið hristist til og frá í vindinum.15.9.2007 | 14:07
Dagur 6
Vaknaði kl. 3.30 í nótt og þá var Tyrfingur kominn með hausverk og óglatt. Lét hann taka sterka verkjatöflu og þá náði hann að sofna en við vorum svo vakin kl. 6 og var honum þá ennþá óglatt. Ég svaf lítið og er það víst algengt þegar komið er í þessa hæð. Haldið var af stað kl. 8. Fyrst var gengið yfir nokkuð háan hrygg, ofan í dal og síðan upp bratta brekku uppá Söðulinn. Allan daginn sáum við Kibo hut í fjarska. Gangan í dag var ekki nema 6 km og það tók okkur 6 klst að ganga þá. Á Söðlinum vorum við komin í ekta íslenska auðn, hefðum allt eins geta verið uppi á Sprengisandi. Kibo hut er í 4700 metra hæð og vorum við orðin ansi þreytt þegar kom að síðustu brekkunni þangað upp. Þar eru hús til að gista í en við vorum áfram í tjöldunum okkar. Sáum vel gönguleiðina áfram upp fjallið upp að Gillmans point. Fengum hádegismat í Kibo hut kl. 14.30. Síðan var hvíld til 17.30 en þá var kvöldmatur og fræðsla um göngu næturinnar. Við yrðum vakin kl. 23 og lagt af stað á miðnætti. Fórum og gerðum okkur klár fyrir næturgönguna og reyndum svo að sofna. Það tókst ekki. Tyrfingi var ennþá óglatt þegar við vorum vakin kl. 23. Ákvað samt að reyna við toppinn. Fararstjórinn var búinn að ráðleggja okkur hvernig við ættum að vera klædd. Ég fór í; smartwool hlýrabol, þunna smartwool ullarpeysu, tvær milliþykkar smartwool peysur og flíspeysu. Einnig var ég í þunnum ullarbuxum, þykkum ullarbuxum, flísbuxum, þykkum smartwool göngusokkum, með flís lambhúshettu og svo í vindgalla yfir öllu saman. Ekki má gleyma þunnum flísvettlingum og þykkum belgvettlingum yfir. Ég var heldur meira klædd en leiðsögumaðurinn hafði ráðlagt okkur en samt var mér skítkalt í öllum stoppum. Svo var ég með þrjá lítra af vatni og eina 6 orkubari en það var nauðsynlegt að nota öll stopp til að drekka og borða til að halda orkunni í lagi.

15.9.2007 | 14:03
Dagur 5
Fengum að sofa til kl. 7 í morgun því ekki var nema fjögurra tíma ganga í næsta náttstað. Lagt var af stað um kl. 9 og gengið í ca klukkutíma og stoppað í 10 mínútur. Þó gangan væri ekki löng þá var hækkunin 700 metrar og því eins gott að fara hægt yfir. Vorum komin í tjaldstað við Mawensi Tarn um kl. 13. Vorum þá komin í 4330 metra hæð. Þá beið okkar hádegisverður sem var stór súpudiskur, brauð, grænmetisbuff, kartöflur, vatnsmelóna og kaka í eftirrétt. Síðan fórum við og lögðum okkur til kl. 15 en þá fórum við í eins og hálfs tíma göngu upp í 4500 metra hæð. Þá voru nokkrir af strákunum komnir með hausverk. Þegar við komum aftur í tjaldstaðinn beið okkar te og popp. Þá tók við hvíld og svo kvöldverður. Við kvöldverðinn spunnust upp miklar umræður um diamox. Hvort og hvenær ætti að taka það og þá hversu stóran skammt. Það virtust allir hafa mismunandi upplýsingar og fararstjórinn dró úr okkur að taka önnur lyf en aspirín.
3.9.2007 | 12:16
Dagur 4
Vorum vakin kl. 6 í morgun og færður tebolli í rúmið. Allt gert til þess að koma í okkur nógu miklum vökva. Skömmu síðar var komið með fat með volgu vatni og sett fyrir utan tjaldið okkar svo við gætum þvegið okkur. Fórum á fætur og pökkuðum saman og síðan var morgunverður. Á meðan við borðuðum morgunverð tóku burðarmennirnir niður tjöldin. Í morgunverð var maísgrautur, brauð, smjör, marmelaði, spæld egg, beikon og ávextir. Kaffi, te og milo. Gengið var af stað um kl. 8. Til að byrja með var gengið í gegnum laufskóg en eftir því sem ofar kom varð gróðurinn barrkenndari. Við borðuðum hádegisverð við Second Cave, þegar við komum þangað var búið að setja upp borð og stóla, dúka borðið og setja á það servíettur. Á steinunum allt í kring um okkur sátu svo leiðsögumenn og burðarmenn en þeir borðuðu aldrei með okkur. Eftir góða hvíld héldum við áfram göngunni að Kikelelva Cave í 3600 metra hæð. Gangan í dag tók um 8 klst.
Hópurinn að borða hádegisverð við Second Cave.
Kilimanjaro | Breytt s.d. kl. 12:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2007 | 09:19
Dagur 3
Morgunverður kl. 8. Hann samanstóð af einhvers konar korngraut sem mér þótti góður, brauði, steiktum bönunum, smjöri og marmelaði auk ferskra ávaxta. Héldum af stað að upphafsstað göngunnar kl. 9.30 og vorum við keyrð á þremur landrover jeppum. Ferðin tók um 2 klst. Að hluta til voru vegirnir malbikaðir en megnið af þeim voru grýttir, holóttir og moldarkenndir slóðar, líklega illfærir í rigningu. Vorum komin að Nalemoru gate kl. 11.30. Þar voru leiðsögumenn og burðarmenn í óða önn að skipuleggja hver bæri hvað og var allur farangur vigtaður og deilt niður á burðarmennina eftir þyngd. Við gengum af stað kl. 12 og var gengið úr 1950 metra hæð og upp í 2700 metra. Tók gangan 4 1/2 klst. Fínasta veður, sól og blíða og heitt. Þegar við komum í tjaldstað beið okkar fat með heitu vatni svo við gætum þvegið okkur og var ekki vanþörf á því mikið ryk þyrlaðist upp af göngustígnum. Þegar við höfðum þvegið okkur var boðið upp á te og popp í matartjaldinu. Kl. 18.30 var svo kvöldmatur sem samanstóð af grænmetissúpu, fiski, kartöflum og grænmetissósu.
Fyrir utan hótelið að leggja af stað í gönguna.
Um bloggið
Kilimanjaro
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar