3.9.2007 | 08:51
Dagur 2
Lentum í Nariobi kl. 6.30 að staðartíma eftir svefnlitla nótt í flugvélinni. Fórum beint í biðsalinn fyrir flugið með Precision air til Tansaníu. Í biðsalnum tókst mér að finna út hvaða átta strákar það væru sem myndu vera að fara í gönguna á Kilimanjaro með okkur Tyrfingi. Fórum í loftið kl. 8 og fyrir tilviljun lentum við Tyrfingur vinstra megin í flugvélinni og sáum því Kilimanjaro mjög vel þegar við flugum framhjá. Mikið ofsalega er það flott. Lentum á Kilimanjaro international airport í Tansaníu kl. 8.50. Þar var tekið á móti hópnum og við keyrð í gömlum Toyota Coaster á Kilimanjaro Mountain Resort hótelið í Marangu. Flott hótel þar sem við höfum okkar eigin svalir, og fyrir utan er sundlaugargarður. Vorum komin á hótelið kl. 11 og við steinsváfum til kl. 16 en þá áttum við að hitta manninn sem sótti okkur á flugvöllinn og fá hjá honum frekari upplýsingar um gönguna á Kilimanjaro. Seinnipartinn fór allur hópurinn í tveggja tíma göngu um nágrenni hótelsins og borðuðum svo kvöldmat saman kl. 20. Allir fóru snemma upp á herbergi til að klára að pakka fyrir gönguna en við megum hafa hámark 15 kg af farangri.
Kilimanjaro séð úr flugvélinni.
Kilimanjaro | Breytt s.d. kl. 08:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2007 | 08:29
Dagur 1
Við Tyrfingur vöknuðum kl. 3 í nótt til að vera komin út á flugvöll kl. 5. Vorum svo heppin að það var engin biðröð við innritunina og við komumst því hratt þar í gegn. Náðum í ferðatékkana sem við vorum búin að panta í Landsbankanum, en það var eini staðurinn þar sem við gátum fengið ferðatékkana í akkúrat þeirri upphæð sem við þurftum eða $640. Flugum í loftið kl. 7.40 og lentum í London rúmlega 12 að staðartíma. Þar sóttum við töskurnar komum þeim í geymslu og tókum hraðlestina (Heathrow express) á Paddington lestarstöðina. Þar keyptum við okkur dagsmiða í neðanjarðarlestirnar. Síðan skruppum við í búðir en ekki var nú mikið verslað enda nægur farangur fyrir. Þurftum að vera komin út á flugvöll aftur kl. 17 til að innrita okkur í flugið til Kenýa. Fengum okkur að borða á flugvellinum og fundum svo sæti þar sem hægt var að horfa út um gluggann á flugvélarnar fyrir utan. Rosalega er mikil flugumferð í London. Flugum í loftið með Kenýa airline kl. 20. Vegalengdin frá London til Nairobi er 6846 km, flugið tók 8 klst. og klukkan í Kenýa er þremur tímum á undan Íslandi.
2.9.2007 | 12:23
Gleðidansinn
Kilimanjaro | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2007 | 20:57
Ferðatékkar
Það er einungis hægt að greiða aðgangseyrinn að Kilimanjaro með ferðatékkum og það kostar $640 og ekki hægt að gefa til baka. Tókst loksins að finna ferðatékka í akkúrat þessari upphæð í Landsbankanum í Leifsstöð. Annars staðar var einungis hægt að fá 500 og 100 dollara tékka.
Einn og hálfur sólarhringur í brottför.
Kilimanjaro | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.8.2007 | 20:56
Skaftáreldahraun
Ég og maðurinn minn fórum í fimm daga gönguferð um Skaftáreldahraun á vegum Íslenskra fjallaleiðsögumanna. Auk okkar og fararstjórans voru grísk hjón og þrír Bretar. Fyrsta daginn var gengið frá Skaftárdal, upp með Skaftá að Hellisá og með henni að Leiðólfsfelli þar sem gist var fyrstu nóttina í frekar frumstæðu leitarmannahúsi sem þó hélt vatni og vindum. Annan daginn var gengið á Leiðólfsfell og er þaðan ágætis útsýni yfir vestur hluta Skaftáreldahrauns og allt inn á Vatnajökul. Gengið var upp með Hellisá og síðan þvert yfir hraunið í Hrossatungur þar sem var gist. Þriðja daginn var gengið upp með Lakagígum að austanverðu upp að Tjarnargíg og síðan í suðaustur í leitarmannahúsið Blágil. Fjórða daginn fengum við rigningu allan daginn og var gengið í austur yfir tilbreytingarlaust landslag, minnti á skosku heiðarnar, gist í leitarmannahúsinu Miklafelli. Síðasta daginn var stefnan tekin á Hverfisfljót og því fylgt til byggða. Þarna eru margir fallegir fossar og flúðir í ánni og vel þess virði að fara þetta sem dagsgöngu. Það sem gerði þessa göngu einnig eftirminnilega var að sjá hvernig útlendingarnir upplifðu landslagið. Þeim fannst alveg æðislegt að við vorum ein í heiminum allan tímann og að við skyldum geta gengið beint af augum án þess að allt svæðið væri í skipulögðum göngustígum.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2007 | 09:25
Bjarnarfell
Í gær gengum við á Bjarnarfell við Geysi. Fórum upp fjallið að sunnanverðu og vorum fjóra tíma upp og niður aftur. Auðveld ganga og flott útsýni af fjallinu. Á morgun er leggjum við svo af stað í fimm daga göngu um Skaftárhraun.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2007 | 12:14
Jökullinn á Kilimanjaro
Frá árinu 1912 hefur jökullinn á Kilimanjaro minnkað um 82%. Árið 1989 var stærð jökulsins 3,3 km2. Gert er ráð fyrir að allur jökull verði horfinn af Kilimanjaro árið 2015-2020 ef hann heldur áfram að bráðna á sama hraða og hann hefur gert hingað til.
Hvaða áhrif hefur það ef allur jökull hverfur af Kilimanjaro? Hvernig verður ferðamennskan á fjallinu ef þar er ekkert vatn að hafa? Jökullinn á Kilimanjaro sér íbúum í þorpunum í kringum fjallið fyrir því vatni sem þeir þurfa; drykkjarvatni, vatni í áveitukerfi akranna, vatni til raforkuframleiðslu o.fl. (Heimild; Henry Stedman 2006. Kilimanjaro, the trekking guide to Africa´s highest mountain).
Útbreiðsla jökuls á Kilimanjaro árið 1962 og árið 2000.
Kilimanjaro | Breytt 20.8.2007 kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2007 | 19:16
Veðurspá fyrir Kilimanjaro 5424 metra hæð
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2007 | 18:23
Lónsöræfi
Við fjölskyldan tókum að okkur að vera skálaverðir í Múlaskála á Lónsöræfum í eina viku í júlí (http://www.horn.is/ferdafelag/skalar.php). Við fórum með honum Ragnari á áætlunarrútunni (www.lon.is) inn á Illakamb. Frá Illakambi þurftum við að ganga með eitt barn á bakinu og allan farangurinn í Múlaskála og tók það okkur 50 mínútur. Auk þess að taka á móti fólki og sinna hefðbundnum skálavaraðarstörfum þá notuðum við næstu viku í að ganga um nágrennið og það er sko af nógu að taka. Gengum upp á Stórahnaus að Meingili og um Gjögur. Fórum að Þilgili og Víðibrekkuskerjum, Leiðartungur að Tröllakrókum og til baka "á milli gilja". Fórum einnig á Kollumúla, í Víðidal og í Stórahnausgil. Þetta svæði er alveg stórkostlega litskrúðugt og fallegt og þarna má sjá bergganga af öllum stærðum. Ég mæli með þessu svæði fyrir alla náttúruunnendur og göngugarpa. Það er alveg ljóst að ég fer þarna aftur við fyrsta tækifæri.
Múlaskáli í Lónsöræfum og Stórihnaus á bakvið.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.8.2007 | 17:57
Þjálfun fyrir Kilimanjaro
Þegar búið var að taka ákvörðun um að ganga á Kilimanjaro var næst á dagskrá að koma sér í gott form. Þó öll þjálfun sé góð það er besta þjálfunin fyrir göngu að ganga.
- Við fórum rólega af stað og þjálfunin í febrúar var ganga og hjólreiðar í samtals 10 klukkustundir.
- Í mars var bætt við skíðagöngu þegar snjór leifði og var æft í 18 klst í mars.
- Í apríl kom rope jóga í staðinn fyrir skíðagönguna. Eins fórum við að færa okkur af láglendinu og uppá fjöll. Gengið var á Esjuna, Móskarðshnjúka, Vörðufell og Búrfell í Grímsnesi. Samtals 35 klst í apríl.
- Vorum löt í maí, ekki nema 28 klst. M.a gengið á Ingólfsfjall, Vörðufell, Þríhyrning og Esju, farið nokkrum sinnum á öll fjöllin neima Esjuna.
- 37 klst í júní. Farið á Ingólfsfjall, Esju, Heklu, Leggjabrjót og Hvannadalshnjúk. Fórum á Hvannadalshnjúk með Einari í Hofsnesi, 14 klst ferð í glampandi sól og stafa logni. Er 12 mínútum fljótari á Ingólfsfjall heldur en ég var í mars svo þjálfunin er greinilega að skila einhverju.
- 43 klst í júlí. Gengum bæði á Stóru- og Stöku- Jarlhettur, Þríhyrning, Ingólfsfjall og Vörðuskeggja. Auk þess tókum við fjölskyldan að okkur að vera skálaverðir í Múlaskála í Lónsöræfum í eina viku og þá kannaði ég allar helstu gönguleiðir í nágrenni skálans og gekk m.a. á Kollumúla.
- Í ágúst er svo á dagskrá fimm daga gönguferð um Skaftárhraunið ásamt einhverjum styttri ferðum. Samtals tóku gönguferðir ágústmánaðar 38 klst.
Kilimanjaro | Breytt 20.8.2007 kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Kilimanjaro
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar