15.9.2007 | 14:07
Dagur 6
Vaknaði kl. 3.30 í nótt og þá var Tyrfingur kominn með hausverk og óglatt. Lét hann taka sterka verkjatöflu og þá náði hann að sofna en við vorum svo vakin kl. 6 og var honum þá ennþá óglatt. Ég svaf lítið og er það víst algengt þegar komið er í þessa hæð. Haldið var af stað kl. 8. Fyrst var gengið yfir nokkuð háan hrygg, ofan í dal og síðan upp bratta brekku uppá Söðulinn. Allan daginn sáum við Kibo hut í fjarska. Gangan í dag var ekki nema 6 km og það tók okkur 6 klst að ganga þá. Á Söðlinum vorum við komin í ekta íslenska auðn, hefðum allt eins geta verið uppi á Sprengisandi. Kibo hut er í 4700 metra hæð og vorum við orðin ansi þreytt þegar kom að síðustu brekkunni þangað upp. Þar eru hús til að gista í en við vorum áfram í tjöldunum okkar. Sáum vel gönguleiðina áfram upp fjallið upp að Gillmans point. Fengum hádegismat í Kibo hut kl. 14.30. Síðan var hvíld til 17.30 en þá var kvöldmatur og fræðsla um göngu næturinnar. Við yrðum vakin kl. 23 og lagt af stað á miðnætti. Fórum og gerðum okkur klár fyrir næturgönguna og reyndum svo að sofna. Það tókst ekki. Tyrfingi var ennþá óglatt þegar við vorum vakin kl. 23. Ákvað samt að reyna við toppinn. Fararstjórinn var búinn að ráðleggja okkur hvernig við ættum að vera klædd. Ég fór í; smartwool hlýrabol, þunna smartwool ullarpeysu, tvær milliþykkar smartwool peysur og flíspeysu. Einnig var ég í þunnum ullarbuxum, þykkum ullarbuxum, flísbuxum, þykkum smartwool göngusokkum, með flís lambhúshettu og svo í vindgalla yfir öllu saman. Ekki má gleyma þunnum flísvettlingum og þykkum belgvettlingum yfir. Ég var heldur meira klædd en leiðsögumaðurinn hafði ráðlagt okkur en samt var mér skítkalt í öllum stoppum. Svo var ég með þrjá lítra af vatni og eina 6 orkubari en það var nauðsynlegt að nota öll stopp til að drekka og borða til að halda orkunni í lagi.

Flokkur: Kilimanjaro | Facebook
Um bloggið
Kilimanjaro
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.